Bláa lónið er einn vinsælasti ferðamannastaður Íslands og fræg nöfn eins og Rammstein, Beyoncé, Jay-Z, Kim Kardashian og Kanye West hafa sést í lóninu.

Bláa lónið er ekki bara þekkt fyrir lónið sjálft, heldur líka lúxushótel og veitingastaði.

Hér eru veitingastaðirnir sem þú verður að vita af ef þú ætlar í Bláa lónið:

Lava er vinsæll veitingastaður meðal gesta Bláa lónsins, en hann er tilvalinn fyrir pör og hóp fullorðinna. Veitingastaðurinn er byggður inn í klett sem er úr 800 ára gömlu hrauni sem gefur staðnum frábært útsýni yfir lónið. Lava er veitingastaður í fínni klassanum og býður upp á allskonar rétti en er með áherslu á sjávarrétti og lambakjöts rétti.

Þann 1. apríl 2018 var Moss opnað og það var sem betur fer ekki aprílgabb! Veitingastaðurinn er með sláandi útsýni út yfir Bláa lónið, fullkomið fyrir gott kvöld eftir góðan dag í hlýja lóninu. Matseðillinn á Moss er töluvert fínni heldur en á Lava, og náttúrulega dýrari fyrir vikið. Fregnir herma að Moss stefni á Michelin stjörnuna, en hvorki Lava né Moss hafa fengið Michelin stjörnu hingað til, enda er líka bara rétt um hálft ár síðan Moss opnaði.

Bónus:

Blue Café er kaffihús með frábært útsýni út yfir lónið. Staðurinn býður upp á létta rétti af allskyns toga; allt frá bakelsi upp í sushi. Tilvalinn staður fyrir hefðbundna fjölskyldu sem vantar létta hressingu eftir ferðina sína í Bláa lónið.

Margir hverjir verða þyrstir þegar þeir hangsa um í 40°c heitu jarðhitavatni. Bláa lónið hefur þó hugsað fyrir þessu og komið upp bar í miðju lóninu. Þar getur þú valið meðal áfengra og óáfengra drykkja. Þú færð armband við afgreiðslu sem þú notar til að versla, síðan greiðir þú með kortinu þínu þegar þú heldur af stað heim á leið. Mjög hentugt og þægilegt.