Potluck Dinner Party

Potluck Dinner Party er gaman-matreiðsluþáttur með kokkinum Martha Stewart og rapparanum Snoop Dogg. Þessi áhugaverða blanda af rappara frá gettóum Los Angeles og vinsældarstjörnu frá New Jersey gerir þáttinn mjög skemmtilegan. Í þættinum fá þau allskonar gesti og oft er þema, til dæmis þegar Martha og Snoop endurgerðu senu úr rómantísku myndinni Ghost. Það sem gerir þáttinn svona góðan er fullorðins húmor og klaufalegur, skakkur Snoop Dogg. Þátturinn fær 6,9 stjörnur á IMDb.

Hells Kitchen

Hells Kitchen er spennandi matreiðsluþáttur sem Gordon Ramsay stjórnar. Í Hells Kitchen keppast ungir kokkar um yfirstöðu í veitingastað á vegum Ramsay. Þátttakendur búa til mat, oft í teymum, síðan fær maturinn dóma. Ramsay er þekktur fyrir að vera harður gagnvart þátttakendum og blóta nánast stanslaust. Hells Kitchen er með 7,1 stjörnur á IMDb.

Masterchef Junior

Í Masterchef Junior er hópur krakka á aldrinum átta til þrettán ára sem keppast um hvert þeirra er besti kokkurinn. Dómarar þáttarins eru kokkarnir Gordon Ramsay, Joe Bastianich, Graham Elliot og Christina Tosi. Það er áhugaverð breyting fyrir áhorfendur að sjá Gordon Ramsay í þætti þar sem hann er mjúkur og ekki síblótandi að rakka niður þátttakendur. Dómararnir eru oft klæddir upp í búninga, til dæmis þegar Ramsay talar við ömmur þátttakenda, sjálfur klæddur sem amma. Masterchef Junior fær 6,7 stjörnur á IMDb.

A Cook Abroad

Í þessari BBC þáttaröð fara kokkar víðsvegar um heiminn í leit af fjölbreyttum uppskriftum. Þáttaröðin fór í loftið árið 2015 en aðeins ein sería með sex þáttum hefur verið búin til. Í fyrstu sex þáttunum fara kokkarnir Dave Myers, Tony Singh, John Torode, Monica Galetti, Rachel Khoo og Rick Stein til ýmissa landa. Hver kokkur fer með einn þátt, og hver þáttur er tekinn upp í einu landi. Þátturinn er ævintýralegur, en kokkarnir fara í gegnum allskonar aðstæður. A Cook Abroad fær 7,4 stjörnur á IMDb.