Hamborgarabúlla Tómasar

Búllan svo kallaða, er fyrsta skyndibitakeðja landsins. Búllan opnaði fyrst þann 14. mars 1981 við Grensásveg. Skömmu fyrir það hafði Tómas Tómasson stundað nám við hótel- og veitingaskóla erlendis þar sem hann fékk ástríðu sína fyrir hamborgurum. Tveimur árum seinna, árið 1983, hafði búllan selt yfir milljón hamborgara. Þegar gekk sem best var keðjan með 26 staði á Íslandi. Í dag er búllan með sjö staði á Íslandi, þrjá í Englandi og Danmörku, tvo í Þýskalandi og Noregi, og einn stað á Ítalíu.

Aktu Taktu

Aktu Taktu er leiðandi í “drive thru” á Íslandi. Þeir sérhæfa sig í snöggri afgreiðslu og góðum mat. Stefna fyrirtækisins er að vera leiðandi á íslenskum markaði, hafa úrvals hráefni í matnum sínum, hreina veitingastaði og snögga þjónustu. Aktu Taktu er staðsett á fjórum stöðum á Höfuðborgarsvæðinu; Skúlagötu, Garðartorgi, Stekkjarbakka og Fellsmúla. Um helgar er opið til klukkan fjögur að nóttu á skúlagötu, annars til klukkan eitt.

Hamborgarafabrikkan

Erfitt er að gera upp á milli Hamborgarabúllunnar og Hamborgarafabrikkunnar. Það er ekki spurning að annar hvor staðurinn tekur bikarinn fyrir bestu hamborgarana á Íslandi. Slagorð Fabrikkunnar er „Hamborgari er ekki það sama og hamborgari“, en þau fá úrvals kjöt sent ferskt til sín, brauðið þeirra er sérbakað í Myllunni, sósurnar þeirra eru sérframleiddar, og samkvæmt þeim meðhöndla þau borgarana sína eins og fínustu steikur.

Drekinn

Umdeilanlega klassíska sjoppan í miðbæ Reykjavíkur. Drekinn býður upp á hefðbundnu söluturna máltíðirnar; báta, borgara, samlokur, fisk, og svo framvegis. Drekinn er í dag á þremur stöðum á Höfuðborgarsvæðinu; í miðbænum, Grafarvogi og Hafnarfirði. Þó svo að borgarinn sé kannski ekki í sama gæðaflokki og á Fabrikkunni, þá er hann samt virkilega góður. Klassíski drekaborgarinn, eða „dreki“, er foreldaður hamborgari sem þeir hita í örbylgjunni. Hann kostar bara um 500 kall og það tekur 2 mínútur að fá hann í hendurnar. Gerist ekki mikið betra.