Kokkurinn og hollywood stjarnan Gordon Ramsay hefur verið kærður af veitingahúsinu Orleana Grill í New Orleans.

Ástæðan fyrir því er video klippa úr atriði sem sýnt er í þættinum Kitchen Nightmares, þar sem Ramsay tekur ónýtar rækjur út úr ísskáp í fyrrnefndu eldhúsi og þefar af þeim. Þá bregst hann við lyktinni af rækjunum með því að æla ofan í ruslafötu.

Klippunni hefur nú verið eytt út af samfélagsmiðlum, að Facebook frátöldu.

Til viðbótar tók þátturinn líka upp myndbönd af Ramsay finna þrjár dauðar mýs í eldhúsi sama veitingastaðar.

Móðurfyrirtæki Orleana Grill, Cajun Conti, sagði í tilkynningu að öll atriðin væru plat og að þær hefðu verið framleiddar til að dramatísera þáttinn.

Árið 2011 sömdu Cajun Conti og FOX, útgefandi Kitchen Nightmares, um að Cajun Conti fengi greitt 10.000 bandaríkjadali fyrir hvert skipti sem þátturinn yrði settur í loftið. Til viðbótar átti FOX að sýna framfarir Orleana Grill í þættinum, kæmi hann til að verða endursýndur.

Myndband af atriðinu var sett upp á Facebooksíðu Kitchen Nightmares fyrir stuttu síðan, en þar voru framfarir Orleana Grill ekki sýndar.

Í lögsókninni kemur fram að Kitchen Nightmares sé að reyna að varpa neikvæðu ljósi á veitingastaðinn. Einnig kemur fram að við tökur þáttarins hafi framleiðendur gert ítrekaðar tilraunir til að yfir-dramatísera og jafnvel reynt að búa til vandamál við veitingastaðinn til að þátturinn fengi betri dóma. þá kemur fram í lögsókninni að myndefni þáttarins hafi með vilja reynt að varpa falskri og neikvæðri ímynd á Orleana Grill með því að hafa sýnt staðinn sem misheppnaðan, skítugan og illa rekinn.

Kitchen Nightmares er þáttaröð frá árinu 2007 sem sýnir fræga kokkinn Gordon Ramsay hjálpa veitingahúsum í vandræðum víðsvegar um Bandaríkin. Þátturinn hefur notið gríðalegra vinsælda meðal svangra áhorfenda um allan heim. Nú hafa sjö seríur verið framleiddar og síðasti þáttur kom út árið 2014. IMDB gefur þættinum 7.5/10 stjörnur.