Domino’s

Ameríski pizza-risinn opnaði fyrsta stað sinn á Íslandi við Grensásveg árið 1993 en rekstur fyrirtækisins hefur gengið sómasamlega. Í dag eru alls 23 Domino’s staðir á öllu landinu. Þar af eru 18 staðir á höfuðborgarsvæðinu, eða um það bil einn staður á 10.000 íbúa. Pizzurnar urðu fyrir gríðalegum breytingum fyrir nokkrum misserum, áður fyrr voru botnarnir allir út í maísmjöli. Tímarnir eru hinsvegar breyttir og í dag eru pizzurnar töluvert betri. Domino’s er klassískur og fljótlegur skyndibiti sem heimurinn þekkir vel.

Flatey

Flatey er pizzastaður sem opnaði nýverið úti á Granda. Staðurinn bakar alvöru ítalskar pizzur með því að eldbaka pizzunar í stuttan tíma við háan hita og setja áleggið á eftir að pizzurnar hafa verið bakaðar, að osti og sósu frátöldu. Miðað við álagið á staðnum (sem er mikið) er biðin eftir pizzunni ekki löng og yfirleitt bara um korter. Pizzurnar eru þunnbotna og margar með pestó og fersku grænmeti af einhvers konar toga.

Eldsmiðjan

Árið 1986, við Bragagötu í miðbænum, opnaði fyrsta Eldsmiðjan. Þessi pizzastaður sérhæfir sig í eldbökuðum pizzum. Pizzurnar eru bakaðar í eldi frá Íslenskum birkitrjám. Pizzurnar eru þunnbotna, eldbakaðar, bragðgóðar og yfir höfuð frábærar. Yfirleitt er töluverð bið eftir pizzunum en biðin er klárlega þess virði. Auk þess að vera á Bragagötu enn í dag, er Eldsmiðjan líka á Laugavegi, Suðurlandsbraut, Ártúnshöfða og Dalsbraut.

Wilson’s

Wilson’s Pizza opnaði í Gnoðarvogi árið 2005 en í dag er Wilson’s í Eddufellinu á móti Fellaskóla. Á matseðli Wilson’s má finna pizzur, hamborgara, samlokur, meðlæti og drykki. Pizzurnar frá Wilsons eru í hefðbundnum amerískum stíl. Wilson’s er klassískur skyndibiti meðal Breiðholtsbúa.

Devito’s

Devito’s opnaði fyrst árið 1994 og varð fljótt einn vinsælasti pizzastaðurinn. Húsnæðið var þó bara lítið skýli sem reyndist ekki duga fyrir mikinn fjölda viðskiptavina. Árið 2005 flutti Devito’s loks í stærra húsnæði við Hlemm þar sem nóg er af sætum fyrir viðskiptavini. Ómótstæðilegar pizzur sem komast auðveldlega í topp þrjú hjá mér.